föstudagur, febrúar 23, 2007

Matvöruverslanir og önnur skemmtiatriði.......

Við íslendingar "seljum" dýrasta vatn í heimi. Ef keypt er skinka á 2000 kr. kílóið - þá erum við um leið að kaupa 250 ml. af "vatni" á 500 kr. - eða 2000 kr. líterinn. Og af því að við nennum ekki að mótmæla þegar við erum tekin svona heiftarlega í xxxxxx - þá viðgengst þetta áfram.
Við missum okkur, með reglulegu millibili, yfir allskonar hormónum og öðrum viðbjóði (sem við vitum ekkert um) sem "Kaninn" er að sprauta í sínar kjötvörur og myndum aldrei í lífinu láta þannig ógeð inn fyrir okkar varir........ en kaupum endilega salt-vatns-?????-blandaða skinku eins og ekkert sé....... Tvöfaldur mórall!

Við kaupum matvöruna (þó aðallega landbúnaðarvörur) með skrilljónprósenta álagningu í verslunum þar sem við erum "keyrð áfram" við kassann , látin drífa okkur í að setja sjálf ofan í pokana sem við kaupum á 15 kr. til þess að verslunareigandinn geti svo hreykt sér í blöðum fyrir að hafa gefið "pokasjóðinn" hingað og þangað...... Við fáum drápsaugu frá láglaunuðu krakkarassgötunum sem eru á kassanum - ef við erum ekki að slá heimsmet í pokaíröðun - um leið og við borgum svimandi upphæðir fyrir....... Drífa sig - drífa sig....... Svo klöngrumst við út með kerruna - fulla af rándýrum - vatnsbættum matvörum - yfir snjó og aðrar torfærur - og svo skal skila kerrudruslunni á sinn stað - svona til þess að "kaupmaðurinn" þurfi ekki að borga öðru krakkarassgati léleg laun til að ganga frá henni svo að hún skemmi ekki bílinn þinn (á kostnað verslunareigenda) þar sem hún fýkur um í þessu 20 metra á sekúndu óveðri sem geysar þá stundina.
Ég fer t.d. með Æðruleysisbænina 2svar áður en ég fer í matarverslanir - 4sinnum inni í versluninni, þegar það er búið að merja hásinarnar á mér nokkrum sinnum með vítaverðum aftanákeyslum og vitskertum smábörnum sem ættu frekar að vera heima hjá sér að "kubba" meðan foreldrarnir versla - og svo er bænin þulin stanslaust í "vitlausu" röðinni við kassann - vegna einskærs kvíða við "niðurröðunarheimsmetið" í pokana.......

Annars er ég bara nokkuð hress - en þið?

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Lærdómsríkir dagar.......

Ég er búin að læra margt síðastliðna daga. T.d. hvernig á að setja upp forkeppni Eurovision - fyrir lítinn pening...... (þ.e. fyrir RUV) Það gekk svo langt að ef við (höfundar) vildum hafa reyk (þurrís) á sviðinu í útsendingu - þá þurftum við að kaupa hann sjálf og koma með í útsendingu og að auki borga manni ca. 40.000 kr. fyrir að sjá um "reykvélina"...... Við slepptum reyknum!

Ég lærði líka hvernig er að vinna með "prófessjónal" fólki - snilldar söngvara, bakröddum á heimsmælikvarða, stílista og danshöfundi...... Allt fólk sem er starfi sínu vel vaxið.

Svo hún Helena hjá BaseCamp - hún á líklega kistu heima hjá sér - fulla af þolinmæði og æðruleysi - kista sem hún getur farið í og fyllt á sig - eftir þörfum.

Ég lærði líka að tapa - ekki það - ég er fullkomlega sátt við að hafa náð öðru sæti í þessari keppni - þó gaman hefði verið að fara til Finnlands - fyrir Íslands hönd - með þessu frábæra listafólki.....
Ég segi bara eins og Jóhanna forðum - Minn tími mun koma!!!

Svo er að lokum smá skot á Kristján Hreinsson - textahöfund þjóðarinnar.....;)
Hann þurfti 9 texta til að lenda í 1. sæti - ég bara einn til að lenda í 2. sæti............
Sem sagt: Sigtryggur vann!!!

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Afmælisstelpan mín!


Þessi fallega unga kona er orðin 21. árs gömul - en það passar engan veginn þar sem svo stutt er síðan hún fæddist.....
Hún er bjútíið hennar mömmu sinnar og betri og fallegri dóttur - getur engin móðir óskað sér.
Til hamingju með daginn - mömmusinnarbestablóm!
p.s. Hjördís Perla - það er grundvallaratriði að "loka" klósettinu...... ;)

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Live and let live.........

Ég tel mig vera ópólitíska - en ég ætla samt að skila auðu í vor. Ég get ekki sætt mig við það sem er í boði. T.d get ég ekki hugsað mér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn - þar sem mér finnst að menn/konur sem brjóta af sér sem fulltrúar fólksins - eigi ekki að komast "aftur" í sömu aðstöðu. Ég líki því við að setja sælgætisgrís inn í sjoppu þ.e. bak við búðarborðið........

Svo er þetta með stjórnmálaumræðu í útvarpi og sjónvarpi. Að horfa á fullorðið fólk tala ofan í hvort annað. Fyrir mér er það dónalegt að tala þegar annar hefur orðið. Og á endanum nær maður engu samhengi í umræðunum - þá stend ég yfirleitt upp og slekk...........

En - live and let live........