miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Áhyggjur og áhyggjuleysi

Hafið þið tekið eftir því hvað það breytir litlu hvort við höfum áhyggjur eða ekki. Hlutir virðast gerast hvort heldur er. Ég er stundum svo áhyggjulaus að mér finnst það jaðra við kæruleysi. En svona er ég bara.
Tók þá afstöðu fyrir nokkrum árum að það breytir engu um niðurstöður - hvort ég er með í magapínu af kvíða, nagandi neglurnar og gnístandi tönnum. Það eina sem það hefur í för með sér er að ég ófríkka - og það er ekki gott!
Það sem hefur reynst mér best, er að trúa á æðri mátt (Hann gefur mér frí svona yfirleitt alla daga og sér um hlutina sjálfur) og treysta því að hlutirnir gangi eins vel og þeir virðast gera -yfirleitt. Og ef svo ólíklega vill til að hlutirnir ganga ekki upp - þá er bara að halda áfram. Passa sig bara á því að reyna ekki það sama aftur og aftur, eftir ca. 10-15 skipti væri gott að skipta um aðferð. Það ætti þá að vera sannað að sú aðferð gengur ekki...................

Snjóakstur og bílskúrar

Mér finnst gaman að keyra í snjó. Það er bara þannig - samt er ég núna á bíl sem er ekki framhjóladrifinn, sjálfskiptur og í fyrsta sinn er ég með nelgd snjódekk. Fyrrverandi bílafloti hefur samanstaðið af framhjóladrifnum, beinskiptum og ekki nelgdum snjódekkjum - þ.e. að vetri til.
En mér er samt skemmt - nema við sköfun af framrúðum - það er ekki eins gaman.
Hvenær ætli verði búið að taka til í bílskúrnum - þannig að ég komin bílnum þar inn. Ég er líka búin að eiga marga bílskúra eða a.m.k. 3 síðustu 5 ár - og viti menn - bíllinn hefur aldrei farið inn í þessa bílskúra. Þar fyrir er alls konar dót - dót sem ég hef flutt með mér á milli heimila. Og ég veit að þið trúið því ekki - ég hef ekki hingað til þurft að nota neitt af þessu dóti.
Er að hugsa um að auglýsa í blöðum eftirfarandi: Tek að mér að flytja dót á milli bílskúra og kompa, fyrir lítinn pening. Geymið auglýsinguna.........................

Væntingar eru hættulegar

Væntingar eru hættulegar - líklega hættulegasti hlutur í heimi. Þær grassera í hausnum á fólki, ímyndunaraflið fer í algjört stjórnleysi og útkoman þess vegna aldrei góð.
Besta ráðið við væntingum er líklega að læra - og kenna öðrum hugsunarlestur. Það er örugglega það eina sem gengur í málinu. Hvernig sem á það er litið eru ekki nein önnur ráð til staðar. Væntingar eru nefnilega bara í hausnum á okkur sjálfum. Þess vegna eru þetta væntingar - ekki eitthvað annað. Við erum að vonast til þess að einhver annar lesi hugsanir okkar, sjái það á okkur eða geti sér til um - hvað það er sem við viljum. Hvernig á það að vera hægt??
Svo þegar ekkert gengur fyrir hinn/hina að uppfylla okkar væntingar - þá förum við í fýlu út í viðkomandi, segjum ekkert og þá þarf hinn aðilinn aftur að fara á námskeiðið í hugsunarlestri svona til að skilja hvað er í gangi!
Hættum að hafa væntingar - tölum við fólk í kringum okkur, segjum hvað við viljum og hvað okkur finnst.
OG SÍÐAST EN EKKI SÍST - STÖNDUM MEÐ OKKUR SJÁLFUM