fimmtudagur, desember 29, 2005

Er hægt að kaupa meira af mat?

Nú er hafinn undirbúningur að veislunni miklu sem verður hér hjá okkur utanlandsförunum á Gamlárskvöld. Keyptir hafa verið 2 kalkúnar (eða kalkhænur - er ekki viss) og þeir hafa verið lagðir í kæli til afþíðingar. Síðan verða þeir teknir á laugardagsmorguninn og góðgæti troðið í afturendann á þeim. Gott þeir eru dauðir!
Við verðum hér "stórfjölskyldan" alls 14 manns og verður mikið um mat og skemmtilegheit. Börnin hafa óskað eftir miklu magni af "dessert" þannig að ég sé fram á að búa til a.m.k. tvöfaldan skammt.
Hluti barnanna gaf okkur Kvikmyndaspilið í jólagjöf - svona til að þurfa ekki að drekka ógeðsdrykk - eins og í fyrra - þegar 70 mín. spilið var spilað.
Mér þykir gaman að elda "góðan" mat - og hlakka þess vegna mikið til að elda á laugardaginn!!

miðvikudagur, desember 28, 2005

Milli-jola-og-nyarstiminn........

gengur á með éljum..... eins og það sé eitthvað nýtt!
Nú erum við hjónin búin að taka til í bílskúrnum, þannig að nú verður hægt að byrja að setja kassana saman til að pakka ofan í þá. Það er ótrúlegt hvað er hægt að henda miklu, sérstaklega þegar við erum nýbúin að fara yfir bílskúrinn og henda a..m.k. 3 kerrum af drasli!!
Ég er oft búin að segja - við flytjum með okkur kompur - pælið í því - maður pakkar drasli í kassa - setur í kompuna eða bílskúrinn, opnar kassana aldrei - og flytur þá með sér milli heimila...... er eitthvað rugl í gangi?

En það gengur vel að pakka - flest fer í kassa og í geymslu - en sumt fær að fara í sólina á Florida...... heppni!

laugardagur, desember 24, 2005

Aðfangadagur........

ég á vin sem er veikur - andlega og núna líka líkamlega. Ég veit ekki hvar hann verður í kvöld - en ég vona að hann nái sátt og ró í hjarta sitt og að jólin komi til hans, með gleði og ljós!
Ég er búin að hugsa mikið til hans - og um hann síðustu daga og ég finn svo mikið til með honum.

Mér þykir alveg rosalega vænt um þennan vin minn, hann er skemmtilegur, góður og lífsglaður - þ.e. þegar hann er ekki veikur.
En hann er sem sagt veikur - og það sem er verst við þann sjúkdóm sem hrjáir hann - hann vill ekki fá aðstoð. Hann vill ekki fá aðstoð við lækninguna og hann vill ekki takast á við sársaukann sem fylgir því að viðurkenna vanmátt sinn.
Það er enginn sem segir að lækningin sé auðveld, en eins og ég hef svo oft sagt: Það er betra að láta sér líða mjög illa í stuttan tíma, en að líða illa í langan tíma.
Ég vona að Guð gefi honum styrk, æðruleysi og dómgreind til að takast á við lífið - sem getur verið svo gott og fallegt - ef maður er tilbúin til að viðurkenna vanmátt sinn og njóta hvers dags fyrir sig.

Gleðileg jól - allir vinir mínir - allsstaðar!

mánudagur, desember 19, 2005

Manudagur - rigning og slappleiki.....

Ég tók upp á því í morgun að vera slöpp. Það hlaut að vera, ég sofnaði í gær í flíspeysu og sokkum, mér var svo kallt. En ég er búin að ákveða að klára þetta á mjööög skömmum tíma, þar sem ég má ekki vera að því að vera veik núna.
Svo er þetta líka frekar leiðinlegt!

En svo er það hitt: Það er ástæða fyrir því að maður veikist, ónæmiskerfið fer "í ræktina" og þá verður maður að gefa eftir. Í raun á ég að þakka fyrir að veikjast, það á sér nefnilega stað alveg einstök endurnýjun.
Ný og betri ég - er hægt að biðja um meira??

Ég bara spyr........

fimmtudagur, desember 15, 2005

Þegar piparkökur bakast...... lalalala

Jæja - nú er loksins komið að því. Ég er að fara að vinna í bakaríinu - til að læra að vinna í bakaríi! Það þýðir víst lítið að mæta algjörlega reynslulaus til USA og ætla að fara að reka bakarí.
Nei - nú set ég á mig svuntuna og ætla að vera hjá Reyni bakara, alla vega eftir hádegi í dag. Svo er það auðvitað spurning hvort ég fái áframhaldandi ráðningu ;)
Vinkonur mínar í Drekaklúbbnum - sem og aðrar vinkonur og frænkur - segjast ætla að fjölmenna í bakaríið í dag, þær halda líklega að þær fái afslátt - but no!!
Ef þið komið og verslið - og þekkið mig ekki - þá er ég þessi í rauðu strigaskónum í anda jólanna...........

þriðjudagur, desember 13, 2005

Bankamenn, lögfræðingar, ahættumatsserfræðingar.....

Það er búið að vera mikið í gangi síðastliðna daga. Endalausir samningar, upplýsingaöflun, upplýsingagjöf, teikningar, innréttingar, pantanir, samtöl, símtöl........ og svo...... gengur allt saman!!!

Magasýrurnar eru að ná eðlilegu jafnvægi, stress-stuðullinn fer lækkandi og bráðum get ég sest niður og hlegið að öllu stressinu. Ég hlakka til - og þá er ég ekki bara að tala um jólin!

Á borðinu hjá mér þessa stundina er eftirfarandi:

Teikningar af bakaríinu (frá Þýskalandi)
Útreikningar vegna fjármögnunar
DVD diskur með logoinu
Verkefnalisti (fyrir næstu daga)
Greiddir reikningar (og ógreiddir)
Fjarstýring (veit ekki af hverju)
Seðlaveskið mitt (aldrei þessu vant í plús)
Head-phones (til að tala á Skype-inu)
.... og síðast en ekki síst:
Smákökuskál (sem var full af smákökum frá Hjördísi Perlu - en er núna tóm) og það var ekki ég sem borðaði þær.....

Mer þykir svo vænt um.........

Guðný Helgu vinkonu mína. Henni datt nefnilega það snjallræði í hug (þ.e. eftir að ég benti henni á það) að setja vinkonu sína inn sem link á bloggið sitt. En hún er svo mikil vinkona að hún vissi ekki einu sinni að MÍN var búin að blogga í rúmlega eitt ár og svo "fattaði" HENNAR allt í einu "upp á" hvað þetta var sniðugt - en vissi ekki af vinkonu sinni "the bloggmaster".

En hvað með það - mér þykir samt vænt um hana og hún er líka verðlaunuð fyrir fegurð!!

En ekki spyrja hana af hverju ég heiti Ingibjörg "dúfukúkafýla" - það gleður hennar litla músarhjarta þegar einhver lendir í vandræðum og hún getur endalaust sagt sögur af öðrum - og hlær oftast svo mikið sjálf að hún nær ekki að segja sögurnar.....

Henni finnst hún fyndin!!!