þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Solböð eða ekki solböð?

Ég er búin að hlægja svolítið að Patriciu vinkonu, hún fór með sínum manni niður á strönd, lengst niðureftir Floridaskaganum. Ath. hún er búin að búa hér í mörg ár..... en hún brann svo heiftarlega að það var ekki fyndið - og þó - hún notaði ekki sólarvörn!! Ég sem hélt að ALLIR notuðu sólarvörn, ég t.d. set á mig 45 í vörn - bara ef ég fer út úr húsinu. Kannski er það ég sem er rugluð - en ég brenn ekki á meðan.....

Bráðum ætla ég að fara í "flotta" kjólinn sem frænkurnar gáfu mér og láta taka af mér mynd - svona til að sýna restinni af vinunum, hvernig smekk þessar frænkur hafa!
Ef þessi kjóll sést opinberlega hér á Florida - verð ég líklega rekin úr landi - þannig að þær geta þá haft það á samviskunni!

Er að spá í að setjast aðeins út við laugina - fjölskyldunni minni heima - sem hefur séð mig í gegnum I-sight eða önnur góð forrit - finnst ég föl!

mánudagur, febrúar 27, 2006

Tækninni fleygir fram.......

núna er ég búin að tala við Óla bróður, pabba, Hjördísi systur og Stellu frænku - og horfa á þau í leiðinni.
Ég skil alveg hvernig þetta virkar, en pabbi er ekki alveg að ná þessu. Hann hélt meira að segja að þetta gæti verið "ólöglegt í USA". Hann er svo mikil lumma! En hann er ennþá að tala um þetta: að sjá húsið mitt, bílinn og allt umhverfið í gegnum tölvu.
Já svona er þetta líf - fullt af nýjungum og spennandi hlutum..........

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Flott frænka.....

ég á margar, flottar frænkur......Þær eru hver annari laglegri, duglegri og skemmtilegri. Skemmtilegasti hópur sem til er - þegar depurð hrjáir einhvern!

Ein þeirra er hér til umræðu. Hún er aðgjörlega í sérflokki þegar kemur að dugnaði. Karlfýlan sem hún bjó með, fékk fiðring í sig og lét sig hverfa, frá henni og börnunum. Greyið hann - þar missti hann af lottóvinningi. Og þar sem hann var ekki greindari en þetta - að vita ekki hvað hann var með í höndunum - þá var gott að losna við hann.
Þessi frænka mín er kvenna fríðust, var að klára tækniháskólann, með 3 börn (og farþegann á öxlunum) en er komin í frábært starf og stendur sig alveg eins og hetja.

Ég er stolt af konum eins og þessari frænku minni - hún getur ALLT sem hún vill - og gerir það vel.

Mér þykir vænt um þig - og farðu verulega vel með þig!!!

Indiana Jones og frumskogurinn......

við Jónína vorum að ryðja "skóg" í gær. Það er á hreinu að tré, runnar, pálmatré og þess háttar, vex - bæði hraðar og betur en við íslendingar eigum að venjast. Það hefur enginn búið í húsinu mínu í hálft ár - húsið er í mjög góðu standi - en garðurinn hefur gleymst. Við vorum að "grisja" ef það er rétta orðið - mætti frekar tala um að "ryðja". Við erum búnar með c.a. 1/10 af garðinum, þannig að það er nóg eftir.
Ég ætla að fara á eftir og finna mér sveðju - og hatt!!

Sjáumst!

mánudagur, febrúar 20, 2006

Stella frænka "klukkaði" mig - og þannig er nu það....

Ég mun gera mitt besta til að svara þessu......

4 störf sem ég hef starfað um ævina.
Flugleiðir
Cityvarvet - Gautaborg
Stöð 2 (sem var og hét)
Síminn

4 myndir sem ég get horft á aftur og aftur.
As good as it gets
Forest Gump
Shinging
Godfather

4 staðir sem ég hef búið á.
200 Kópavogur
Gautaborg
108 Reykjavík
200/203 Kópavogur

4 staðir sem ég hef farið til í frí.
Flórída
Spánn
Skorradalur
England

4 heimasíður sem ég heimsæki daglega.
mbl.is
jahernamig.blogsport.com
blog.central.is/octopussys/
kbbanki.is

4 uppáhaldsmatartegundir.
Kalkúnn
Kjúklingur
Ís
Hreindýr

4 staðir sem ég vildi heldur vera á.
Ofan í sundlauginni
Skorradalur í heita pottinum
Með börnunum mínum - einhversstaðar
Allir góðir staðir

4 hlutir sem ég hlakka til.
Að opna bakaríið
Að hitta börnin mín/okkar
Að eignast Corvettu
Að verða "stór"

4 bloggarar sem ég ætla að klukka.
"Einar Áskell"
Júlli
Hulda Proppé
Ástkær eiginmaður minn

laugardagur, febrúar 18, 2006

Girls night out.......

við fórum í gærkvöldi, nokkrar saman nágrannakonurnar, bæði íslenskar og amerískar, downtown Disney. Skemmtilegt svæði sem ég hafði ekki komið á áður. Þarna eru allskonar klúbbar, lifandi tónlist, góðir veitingastaðir og "stand-up" staðir. Þetta var ekkert smá gaman - mikið hlegið - og þær amerísku fengu sinn skammt af íslenskum húmor og lærðu að skemmta sér "the icelandic way"!
Þarna kom upp bráðsmiitandi "tourette" tilfelli - og merkilegt var að það skildi smitast á íslensku!! Mikið hlegið og okkur fannst við mjög skemmtilegar.

Í dag skín sólin og skellihlær - og ég ætla að draga minn heittelskaða - fallega - eiginmann út í garð að klippa tré...... Hann er svona rétt að jafna sig á stærðinni á garðinum, hann komst að því um daginn (þegar hann var að leita að "sprinkler-systeminu" hvað landareignin er stór. Það þarf að klippa niður "nettan" frumskóg - fyrir framan sundlaugar-svæðið! Þarna eru litlar eðlur (sem mér finnst sætar) og stórar engisprettur (sem eru hálfsystur leðurblaka) og mér finnst þær EKKI sætar. Mér er ekki illa við skordýr - but this is to much!!!

Gott að hafa riddarann á hvíta hestinum (með bláu handskana) með sinni!!!!

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Hitastigið að hækka!

Jæja - þá er þetta kuldakast að verða búið. Allavega á að vera ca. 25° á fimmtudag og föstudag.

Núna er "sundlaugarkallinn" að gera sundlaugina klára fyrir sumarið - og það virðist taka aðeins lengri tíma að fylla laugina - en það tekur að láta renna í baðið. Svo ætla ég að kaupa svona "huge" sigti til að veiða laufblöðin upp úr lauginni.
Talaði við Gunna bróður og Ernu mágkonu áðan - og ég vona að þau taki sig nú til og fari að panta flug til Orlando.
Sama á að vísu við um Hjördísi systur mín og Óla bróður minn - ég vil fá ykkur í heimsókn við fyrsta tækifæri.

Jæja - nú er bara að fara upp og finna bikini-ið og skella sér í laugina!

mánudagur, febrúar 13, 2006

Frost er uti - fuglinn minn!

Já kæru vinir - nú er frost á Florida. Miðað við staðsetningu mína núna er frekar kallt. Floridabúar tala um að það verði sett nýtt kuldamet í dag og á morgun. Maður spyr sig hvort þetta hafi komið með ferðatöskunum okkar!!

En vorið er á næsta leiti hér - sólin skín þó glatt og hitar lúin bein.

Annars er allt í fullum gangi hjá okkur - velja gólfefni á bakaríið og ræða við arkitekta og annað gáfulegt fólk.

Ég er komin með nettengingu og heimasíma - nokkuð sem svona veraldarvant fólk eins og við - þurfum nauðsynlega að hafa til að vera í sambandi.

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Þetta veika folk sem vinnur a DV!!!

Jæja - þá eru ritstjórarnir á DV endanlega búnir að syngja sitt síðasta - svona þegar það kemur að mér. Við fengum símtal í morgun þar sem okkur var sagt að Viðar mágur væri núna á forsíðunni. Við fengum líka að heyra það rétta í málinu - að hann hafi verið handtekinn og sleppt strax aftur - þar sem um mistök var að ræða. Lögreglan bað hann afsökunar - þeir höfðu farið mannavillt. En viti menn - DV hefur þarna framið enn eitt MANNORÐSMORÐIÐ!!!! Fjölskyldan og sérstaklega fullorðnir foreldrar Viðars, sitja eftir í sárum og hafa fengið sáluhjálp frá presti.
Ég er svo reið og mér líður svo illa með þetta - en ég trúi samt einu - þeir sem kasta drullu í náungann - þeir hafa nóg af drullunni sjálfir - annars væru þeir varla að kasta henni í aðra!

Við fengum líka þær fréttir að núna yrði farið í mál við DV - og ekki vanþörf á.
Ég hef unnið hjá þessu fyrirtæki sem nú rekur 365 miðla - ég hef séð þessa menn sem núna sitja við stjórnvölinn þarna hjá DV - ég hef horft á þá gera hluti sem þeir myndu EKKI vilja að væru á forsíðu DV - svona t.d. í fyrramálið - þegar þeir vakna!

Er ekki komið að því að fólk hætti að styrkja aumingja í aumingjaleik!!!!

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Lifið i hraða og "slowmotion"

Jæja - nú erum við farin að slást við "bírókratíuna" í Ameríku. Okkur finnst hlutirnir ganga hægt fyrir sig heima þ.e. hjá sýslumanni og þannig - en halló - þið ættuð að vera hér. Við erum helst í því að naga handarbökin á okkur og bíða róleg. Það er allt á fullu hjá okkur - í því að hitta arkitekta, verktaka ofl.

Svo er verið að koma "húsgögnunum" í húsið. Húsið er bara svo stórt......... Við eigum þó hérna rúm, sjónvarp og svo erum við með borð sem Jónína vinkona var búin að kaupa. Svo koma kassar frá Íslandi - líklega í vikunni og þá fáum við mikið af dótinu okkar........ vei vei vei!

Sólin skín - en svolítið kallt núna (ekki nema ca. 20) sem er lítið miðað við árstíma!

Meira seinna!