þriðjudagur, október 31, 2006

Skornir fundnir........

ég fann loksins skammdegisskó. Þeir biðu alveg rólegir eftir mér í verslun í Kringlunni, svartir og loðfóðraðir. Þeir eru algjörir torfæruskór, upphækkaðir og með "muddera"....... Meira að segja innbyggðir mannbroddar.
Ég vil taka það fram að skórnir eru mínir og verða ekki lánaðir (frekar en gítarinn hennar Hjördísar systur) ekki einu sinni gegn vægu gjaldi.
En ég er tilbúin að gefa upplýsingar um hvar hægt er að nálgast svona tryllitæki!!

fimmtudagur, október 26, 2006

Skammdegisskornir........



Ég hefði ekki átt að vera svona grimm gagnvart gömlu skammdegisskónum mínum. Nú er aftur komið skammdegi og ég búin að senda gömlu skóna til Guðs........

Fann þessa skó á síðu þar sem þeir unnu "ljótu skór vikunnar" um daginn. Þetta er ekki alveg það sem ég er að leita að - heldur skór sem geta labbað í snjó, slyddu, rigningu og drullu - með mér og Prins (úlfhundinum).

Ef einhver getur gefið upplýsingar um það hvar þannig skó er að finna - vinsamlegast látið mig vita.

Þeir (skórnir) mega gjarnan vera loðfóðraðir - svo tásurnar mínar verði ánægðar - og heitar!

miðvikudagur, október 11, 2006

Að treysta "vinum".......

ég er svo hissa...... en þó ekki. Það er nett 4. spors vinna að fara í gengum traust til vina. Ég vil að gefnu tilefni benda fólki sem mér þykir vænt um að treysta ekki "vinum" sínum. Sérstaklega ekki ef þið ætlið að eiga viðskipti við þá. Það er gott og blessað að fara í viðskipti með vinum sínum - en í Guðs bænum - hafið allt - og þá meina ég allt - skriflegt........

Þetta hljómar hálf "paranojað" - en enginn veit - fyrr en allt í einu.......

Ég mun hafa viðskipti skrifleg í framtíðinni..... en hef þó grætt einn hlut - ég veit hverjir vinir mínir eru.

Og ég er heppin - ég á mjög góða vini!

laugardagur, október 07, 2006

Bara að muna að anda.......

það er gott að minna sig á það að lífið gengur - þó að stundum sé maður með - og stundum á móti. Krosstré brotna, klettar molna niður og stundum syndir maður á móti straumnum. Svo er stundum allt á beinu brautinni og meira að segja geitungarnir velja aðra glugga að fljúga inn um...........
Hvort sem maður er með eða á móti - er gott að minna sig á það að anda - anda inn og svo anda út - endurtakist (alla ævi skilst mér) aftur og aftur.
Ég "klíf skriður og skríð kletta" og svo "andar suðrið sæla" - þetta er bara svona!

Það eina sem ég þarf víst að muna - er að anda - og miðað við aldur, menntun og fyrri störf - þá ætti ég að ná því - eða hvað haldið þið?