þriðjudagur, janúar 31, 2006

Komin til Florida!

Jæja elskurnar - þá er ég komin til Florida. Ekkert sérstaklega heitt - 15° - en sólskin eins og lög gera ráð fyrir. Ég viðurkenni að það var erfitt að kveðja fólkið mitt, sérstaklega pabba (veit auðvitað ekki hvort ég sé hann aftur) og börnin mín sem ég elska út af lífinu , Óla bróðir minn, Gunna bróðir- Hjördísi systur (bestu systur sem nokkur getur átt) og alla og alla!! Frænkurnar gáfu mér gjöf sem angaði af Þorramat, ég varð (nauðsynlega) að þvo dressið - en ég SKAL fara í dressið seinna og bið Grétar að taka af mér mynd og sendi vel völdum vinum mínum!!!

En - heimurinn er lítill og það tekur jafn langan tíma að fljúga til Orlando og að keyra til Egilsstaða (þið megið velja hvert þið farið). Ég fæ húsið mitt afhent í dag og er á leiðinni út að kaupa mér rúm.
Hlakka til að sofa í mínu húsi í nótt. Við Grétar og Jónína erum að fara að ná okkur í bílaleigubíl - svona til að brúa bilið þar til Grétar fær Navigatorinn sinn...........

Svo bíður rauða Corvettan einhverstaðar eftir mér og kallar nafnið mitt! Ingibjörg... ingibjörg.... ingi.....

föstudagur, janúar 27, 2006

Frænkurnar kveðjast........

Jæja - nú hafa frænkurnar ákveðið að kveðja Fallegu-Florida-Frænkuna - formlega. (Hvað eru mörg F í því???)

Samkvæmt öllu hefði ég átt að fara út í dag - en svo tók "einhver" upp á því að eiga afmæli á morgun - laugardag - og þessi "einhver" hefur dálæti á Stjórninni og mun hún þ.e. Stjórnin spila í afmælinu og þess vegna er ákveðið að ég muni fara af landi brott á mánudaginn 30. janúar.

Við ætlum sem sagt að hittast á Solon kl. 16 á sunnudaginn - og býð ég hér með aðrar "frænkur" velkomnar. "Frænkur" myndu skilgreinast sem tengdar mér - blóðtengdar eða vina-tengdar.

Hlakka til að sjá allar "frænkur" mínar!

laugardagur, janúar 21, 2006

Þingholl kvaddur i bili........

Jæja - þá er verið að ganga frá öllu, búið að ryksuga og skúra, kveðja alla innanstokksmuni og kyssa Fuffu á trýnið (svona allavega í huganum). Það hefur ekkert versnað útsýnið hérna, þó að við séum að fara (allavega næstu 3 mánuði)........ Og ég er næstum viss um að þetta verður allt hérna - þegar ég kem næst. Viðurkenni þó fúslega að það er smá söknuður í mér.

Næstu dagar fara í það að ganga frá í töskur, kveðja fólkið mitt (okkar) og fara svo á vit ævintýranna í vesturheimi.

Svona miðað við það þegar ég var við nám og störf í Gautaborg á sínum tíma, þá er svona ferðalag ekkert mál. Nú get ég hringt gegnum netið, bloggað, lesið moggann á netinu og ég veit ekki hvað og hvað...... Það er smá breyting frá því að fá Moggann upprúllaðan í pósti, svona á mánaðar fresti - frá mömmu. (Nú segir Gudda að ég sé gömul......)


Þar til næst....... over and out!

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Komin i sveitina - vei vei vei......

Nú erum við hjónin komin aftur í Skorradalinn, búið að kveikja upp í kamínunni og hækka í pottinum. Snjór yfir öllu og skrítið að sjá hvernig trén liggja niðri - undir snjónum.
Ég fann gamalt brauð og fór með það - langt frá bústaðnum - til að gefa Fuffu (sem er lítil hagamús). Grétar vill ekki að ég gefi henni fyrir utan bústaðinn - ég sem vil hafa hana hérna inni til að hún geti hlýjað sér. Svona er fólk ólíkt!

Nú er bara að njóta þess að vera hér í hlýjunni og slaka aðeins á.........

sunnudagur, janúar 08, 2006

Skorradalur - online......

Jæja - þá er loksins komið að því, það er komin Internettenging á Þinghól. Nú get ég "bloggað" úr sveitinni. JAX er sem sagt búinn að tapa keppninni - þar sem hann er EKKI með Stöð 2!!!!!

Við erum búin að hafa það gott í rokinu og snjónum og rigningunni. Ég vaknaði að vísu í nótt við eitthvað furðulegt "væl" í húsinu en ég held að það hafi átt sér skýringu í veðri og vindáttinni. Þannig að ég snéri mér bara á hina hliðina og hélt áfram að nýta fegurðarblundinn. Og þar sem ég svaf næstum 11 klst. þá hlýt ég (samkvæmt öllu) að vera orðin mjög lagleg. Var að vísu búin að tapa mikilli fegurð vegna svefnleysis síðustu vikur - þannig að ég er líklega bara á núll-punkti. En þá er víst best að leggja sig.........
Núna erum við hjónin að fara yfir pappíra - sem við höfum sankað að okkur síðustu mánuði, flokka og senda sumt í ruslið....... Reyni þó að setja ekki reikningana í ruslið, þó það sé freistandi.

Over and out - í bili.......